RORUM í samstarfi við Ocean University of China

20. október 2020 eftir Þorleifur Ágústsson

Dr. Þorleifur Ágústsson er meðhöfundur að nýrri vísindagrein í samstarfi við vísindamenn frá Ocean University of China. Þorleifi var boðið í heimsókn til Quingdao í Kína til að ræða fiskeldi við vísindamenn háskólans og í kjölfarið tók hann þátt í rannsókn með þarlendum vísindamönnum. Greinin hefur verið birt í ritrýndu tímariti og má lesa hér.

Nýsköpunarsjóður námsmanna - verkefni lokið

14. október 2020 eftir Anna Guðrún Edvardsdóttir

Í sumar vann Óskar Kristjánsson, nemandi við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands að verkefninu Staða og hlutverk skólasamfélags við gerð samfélagsáætlana í brothættum byggðum. Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og var um þriggja mánaða styrk að ræða. Umsjónarmaður verkefnisins var Anna Guðrún Edvardsdsóttir, sérfræðingur hjá RORUM en nemandinn hafði aðstöðu á skrifstofu RORUM í Sundaborg 1 í Reykjavík.  Verkefninu er nú lokið og er skýrsluna að finna í útgefið efni.

Dr. Þorleifur Ágústsson gengur til liðs við RORUM

15. júlí 2020 eftir Þorleifur Ágústsson
Þorleifur Ágústsson
Þorleifur Ágústsson

Dr. Þorleifur Ágústsson sem búið hefur og starfað síðustu ár í Noregi hefur gengið til liðs við RORUM. "Það er mikill fengur að fá mann með hans reynslu og þekkingu til liðs við okkur, en Dr. Þorleifur hefur frá stofnun RORUM verið náinn samstarfsmaður okkar" segir framkvæmdastjóri RORUM, Þorleifur Eiríksson. 

Nýsköpunarsjóður námsmanna

18. júní 2020 eftir Anna Guðrún Edvardsdóttir
Óskar Kristjánsson
Óskar Kristjánsson

Í seinni úthlutun Nýsköpunarsjóðs námsmanna hlaut verkefnið Staða og hlutverk skólasamfélags við gerð samfélagsáætlana í brothættum byggðum styrk í þrjá mánuði fyrir einn námsmann. Umsjónarmaður verkefnisins, Anna Guðrún Edvardsdóttir, sérfræðingur hjá RORUM ehf og Óskar Kristjánsson, nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands sóttu saman um styrkinn. Óskar mun hafa starfsaðstöðu á skrifstofu RORUM ehf meðan á verkefninu stendur og er hann boðinn velkominn í hópinn.

Vinna Óskars felst í öflun, greiningu og túlkun opinberra gagna og ritrýndra heimilda, bæði erlendra og innlendra, um byggðamál, menntamál og samfélagsmál með það fyrir augum að greina ríkjandi orðræðu um ofangreinda þætti. Í slíkum skjölum birtist hin pólitíska stefna sem útfærð er af viðkomandi ráðuneytum. 

Um er að ræða fyrsta hluta rannsóknaverkefnis sem Anna Guðrún hyggst halda áfram með. Rannsóknin tekur til svæða sem eru viðfangsefni verkefnisins Brothættar byggðir og miðar að því að setja fram skipulag og áætlun sem nýst geta skólum til að efla nemendur sem virka þátttakendur í stefnumótun samfélagsins. 

 

 

Staða og hlutverk þekkingarsetra í byggðaþróun

18. júní 2020 eftir Anna Guðrún Edvardsdóttir

Undanfarin tvö ár hefur Anna Guðrún Edvardsdóttir, sérfræðingur hjá RORUM ehf unnið að rannsóknarverkefni sem styrkt var af Byggðarannsóknarsjóði og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu um stöðu og hlutverk þekkingarsetra í byggðaþróun. Þrjú þekkingarsetur tóku þátt í rannsókninni; Nýheimar Þekkingarsetur á Hornafirði, Þekkingarnet Þingeyinga á Húsavík og Háskólafélag Suðurlands á Selfossi og var verkefnið unnið undir stjórn Nýheima Þekkingarseturs.

Rannsóknin snéri að því að skerpa sýn á stöðu, hlutverk og árangur þekkingarsetra á landsbyggðinni, með sérstakri áherslu á byggðaþróun. Rannsóknin fól í sér úttekt á innri starfsemi þekkingarsetra og rannsókn á áhrifum og stöðu þeirra gagnvart nærsamfélaginu. Gagna var aflað með einstaklings- og rýnihópaviðtölum auk rafrænnar spurningakönnunar.

Niðurstöður eru m.a. þær að setrin þrjú eru ekki ólík í uppbyggingu. Mismunandi áherslur eru í skipulagi og starfsemi setranna en þau starfa öll á sama sviði; þ.e. menntun, menningu, rannsóknum og nýsköpun. Staða þeirra í samfélögunum er sterk og orðræðan um þau er jákvæð en niðurstöður benda til þess setrin hafi ekki náð að tengjast ákveðnum hópum íbúa í nærsamfélaginu. Þjónusta við háskóla og fjarnema auk símenntunar er sá þáttur starfseminnar sem íbúar þekkja best en vitneskja íbúa um rannsóknir og nýsköpun er takmörkuð.

Gefnar voru út þrjár áfangaskýrslur þar sem niðurstöður einstaklingsviðtala, spurningakönnunar og rýnihópaviðtala voru kynntar. Gefin hefur verið út lokaskýrsla verkefninsins þar sem m.a. er að finna tillögur til úrbóta og hvernig þróa megi áfram starfsemi setranna með áherslu á að efla hlutverk þekkingarsetra sem miðstöð (one-stop-shop) sem greitt geti götu og stutt við íbúa og atvinnulíf á starfssviðum þeirra.

Hægt er að nálgast skýrslurnar á heimasíðum þekkingarsetranna þriggja og RORUM ehf.