Staða og hlutverk þekkingarsetra í byggðaþróun

18. júní 2020 eftir Anna Guðrún Edvardsdóttir

Undanfarin tvö ár hefur Anna Guðrún Edvardsdóttir, sérfræðingur hjá RORUM ehf unnið að rannsóknarverkefni sem styrkt var af Byggðarannsóknarsjóði og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu um stöðu og hlutverk þekkingarsetra í byggðaþróun. Þrjú þekkingarsetur tóku þátt í rannsókninni; Nýheimar Þekkingarsetur á Hornafirði, Þekkingarnet Þingeyinga á Húsavík og Háskólafélag Suðurlands á Selfossi og var verkefnið unnið undir stjórn Nýheima Þekkingarseturs.

Rannsóknin snéri að því að skerpa sýn á stöðu, hlutverk og árangur þekkingarsetra á landsbyggðinni, með sérstakri áherslu á byggðaþróun. Rannsóknin fól í sér úttekt á innri starfsemi þekkingarsetra og rannsókn á áhrifum og stöðu þeirra gagnvart nærsamfélaginu. Gagna var aflað með einstaklings- og rýnihópaviðtölum auk rafrænnar spurningakönnunar.

Niðurstöður eru m.a. þær að setrin þrjú eru ekki ólík í uppbyggingu. Mismunandi áherslur eru í skipulagi og starfsemi setranna en þau starfa öll á sama sviði; þ.e. menntun, menningu, rannsóknum og nýsköpun. Staða þeirra í samfélögunum er sterk og orðræðan um þau er jákvæð en niðurstöður benda til þess setrin hafi ekki náð að tengjast ákveðnum hópum íbúa í nærsamfélaginu. Þjónusta við háskóla og fjarnema auk símenntunar er sá þáttur starfseminnar sem íbúar þekkja best en vitneskja íbúa um rannsóknir og nýsköpun er takmörkuð.

Gefnar voru út þrjár áfangaskýrslur þar sem niðurstöður einstaklingsviðtala, spurningakönnunar og rýnihópaviðtala voru kynntar. Gefin hefur verið út lokaskýrsla verkefninsins þar sem m.a. er að finna tillögur til úrbóta og hvernig þróa megi áfram starfsemi setranna með áherslu á að efla hlutverk þekkingarsetra sem miðstöð (one-stop-shop) sem greitt geti götu og stutt við íbúa og atvinnulíf á starfssviðum þeirra.

Hægt er að nálgast skýrslurnar á heimasíðum þekkingarsetranna þriggja og RORUM ehf.