Gunnar Steinn Jónsson. 2018. Þörungagróður í Þingvallavatni. Ljósmyndir af 56 tegundum svifþörunga og 125 tegundum smásærra kísilþörunga á botni Þingvallavatns. RORUM 2018. 001.

RORUM 2018 001

 Höfundur gerði nýlega grein fyrir sögu svifþörungarannsókna í Þingvallavatni í Náttúrufræðingnum (Gunnar Steinn Jónsson 2015). Danirnir Carl Hansen Ostenfeld og Carl Wesenberg-Lund rannsökuðu vatnið árin 1902-1903 (1906). Þeir nafngreindu 28 tegundir og birtu teikningar af nokkrum þeirra. Rannsóknir voru í gangi á árabilinu 1974 til 1987 (Pétur M. Jónasson, Hákon Aðalsteinsson og Gunnar Steinn Jónsson 1992) þar sem nafngreindar voru 35 tegundir. Náttúrufræðistofa Kópavogs sendi nokkur sýni til greiningar hjá kanadísku fyrirtæki á árunum 2007–2010 og nafngreinir í framhaldinu mun fleiri tegundir þörunga í svifi Þingvallavatns en áður (Hilmar J. Malmquist og fleiri 2008, 2009, 2010 og 2011). Margar þeirra eru reyndar þekktar botnlægar tegundir í vatninu.

Þegar áratugir líða á milli verkefna og ekki er samfella í rannsóknum, tapast þekking og reynsla. Höfundur þessarar skýrslu hefur tekið upp þráðinn frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar; tekið saman leiðbeiningar um söfnun og úrvinnslu svifþörunga í Þingvallavatni, sett fram rannsóknarmarkmið og greint og talið sýni frá 2015 (Gunnar Steinn Jónsson 2016).

Ljósmynda- og tölvutækni nútímans gerir mögulegt að taka stafrænar ljósmyndir í smásjánni og vinna greiningar og mælingar áfram í myndvinnsluforritum (Photoshop). Leitað var til verkefnasjóðs umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um stuðning til greininga, myndatöku og myndvinnslu á svifþörungum Þingvallavatns. Styrkur var góðfúslega veittur og er þessi skýrsla árangur af þeirri vinnu.

Í rannsóknum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar fundust liðlega 150 botnlægar þörungategundir í vatninu (Gunnar Steinn Jónsson 1987 og 1992), þar af 137 kísilþörungategundir. Teknar voru ljósmyndir af mörgum þeirra. Filmurnar eru enn til og kísilþörungasýnin frá þeim tíma eru einnig til, steypt á smásjárgler og hægt að taka af þeim nýjar stafrænar myndir. Ljósmyndir af mörgum þeirra voru límdar upp á spjöld (spjöld 2 til 12), en það var liður í prófverkefni við Hafnarháskóla árið 1980. Ekki er óvarlegt að álykta að það sé búið að nafngreina yfir 200 þörungategundir í Þingvallavatni og í þessari skýrslu eru ljósmyndir af um 180 þeirra.

Ávinningur verkefnisins

Að ljósmyndirnar sem teknar eru í smásjá og birtar, gera smásæja þörunga Þingvallavatns sýnilega öllum sem hafa áhuga á að sjá útlit þeirra.

Helsti ávinningur, vísindalegur og fyrir stjórnvöld, er:

  1. a) tegundarlisti smásærra þörunga Þingvallavatns verður studdur með myndum teknum af þörungum úr vatninu og öðrum gögnum. Slíkur myndalisti er ígildi tegundasafns fyrir vatnið (ÍST EN 15204:2006),
  2. b) við flokkunarfræðilegar breytingar, eða við endurskoðun á nafnagjöf, verður ljóst hvaða þörungaform liggja að baki tegundarlistans. Einfaldara verður fyrir sérfræðinga framtíðarinnar að gera leiðréttingar á listanum, c) hægt verður með meira öryggi að leggja mat á hvort nýjar tegundir séu að birtast til sögunnar í vatninu,
  3. d) gagnablöðin styðja við vöktun vatnsgæða Þingvallavatns og rannsóknir í framtíðinni.

Nöfn tegunda eru í samræmi við AlgaeBase gagnagrunninn (Guiry & Guiry).