Þorgerður Þorleifsdóttir1,2 , Þorleifur Eiríksson 1 , Hilmar J. Malmquist 2 og Hrefna Sigurjónsdóttir 3. Varpatferli skötuorms. 1 RORUM, 2 Náttúruminjasafn Íslands, 3 Háskóli Íslands.

Lítið er vitað um lífsögu skötuormsins (Lepidurus arcticus), sem er krabbadýr og stærsti hryggleysinginn í ferskvatni á Íslandi. Hér er gerð grein fyrir rannsókn á varphegðun dýranna. Lifandi skötuormum var safnað í Veiðivötnum sumarið 1996, dýrin flutt á rannsóknastofu og varpatferli dýranna rannsakað. Gerðar voru tilraunir á einstaklingum, sem settir voru í ílát með vatni ásamt mosagrein til að verpa á og gefin fæða einu sinni á dag. Mosagreinar voru athugaðar daglega og egg á greinum talin. Samanburður á stærð dýra og fjölda eggja í urpt leiddi í ljós marktæk  jákvæð tengsl þar á milli. Samskonar tengsl fundust á milli stærðar dýra og hversu oft þau verptu – stærri dýr verptu oftar en minni dýr og heildarfjöldi eggja var meiri hjá stærri dýrum. Um tveir þriðju dýra verptu oftar en einu sinni. Tíðni varps (mælt sem tími milli urpta) var aftur á móti breytileg meðal einstaklinga og óháð stærð þeirra, en algengast var að dýrin verptu með u.þ.b. tveggja sólarhringa millibili. Rannsóknin bendir til þess að líkamsstærð sé mikilvæg í varphegðun skötuorms og ákvarði hversu mörgum eggjum er verpt hverju sinni en ákvarði ekki tíðni varps og er þetta í fyrsta skipti sem sýnt er fram á þetta hjá þessari tegund. Ýmislegt annað í umhverfi dýrsins og þroska skiptir eflaust máli í þessu samhengi. Þessar niðurstöður eru áhugaverðar en rannsóknin er lítil að vöxtum og þörf er á að skoða lífshætti  þessa merka dýrs miklu betur.

Skoða má veggspjaldið hér.