Nýsköpunarsjóður námsmanna

18. júní 2020 eftir Anna Guðrún Edvardsdóttir

Í seinni úthlutun Nýsköpunarsjóðs námsmanna hlaut verkefnið Staða og hlutverk skólasamfélags við gerð samfélagsáætlana í brothættum byggðum styrk í þrjá mánuði fyrir einn námsmann. Umsjónarmaður verkefnisins, Anna Guðrún Edvardsdóttir, sérfræðingur hjá RORUM ehf og Óskar Kristjánsson, nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands sóttu saman um styrkinn. Óskar mun hafa starfsaðstöðu á skrifstofu RORUM ehf meðan á verkefninu stendur og er hann boðinn velkominn í hópinn.

Vinna Óskars felst í öflun, greiningu og túlkun opinberra gagna og ritrýndra heimilda, bæði erlendra og innlendra, um byggðamál, menntamál og samfélagsmál með það fyrir augum að greina ríkjandi orðræðu um ofangreinda þætti. Í slíkum skjölum birtist hin pólitíska stefna sem útfærð er af viðkomandi ráðuneytum. 

Um er að ræða fyrsta hluta rannsóknaverkefnis sem Anna Guðrún hyggst halda áfram með. Rannsóknin tekur til svæða sem eru viðfangsefni verkefnisins Brothættar byggðir og miðar að því að setja fram skipulag og áætlun sem nýst geta skólum til að efla nemendur sem virka þátttakendur í stefnumótun samfélagsins.